Uppbygging á Vopnafirði.

Þetta kom fram á kynningarfundi sem nokkrir af lykilstjórnendum HB Granda héldu með sveitarstjórnarmönnum á Vopnafirði í gær. Auk Eggerts Benedikts tóku Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs félagsins, Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri, Magnús Róbertsson, vinnslustjóri, og Gísli Sigmarsson, tæknistjóri, þátt í kynningunni en þeir þrír síðast nefndu eru allir starfsmenn félagsins á Vopnafirði. Gengið var um nýju fiskmjölsverksmiðjuna, uppsjávarfrystihúsið og nýju mjölgeymsluna, sem er í byggingu.
Í máli Eggerts Benedikts og Vilhjálms kom fram að gríðarlegar breytingar hefðu orðið á möguleikum til veiða á uppsjávartegundum frá árinu 2005. Það ár veiddu skip hins sameinaða félags 265 þúsund tonn af kolmunna, síld og loðnu en til samanburðar mætti nefna að heimildir þess í sömu fisktegundum á þessu ári næmu aðeins 63 þúsund tonnum. Þar munaði mestu um hrun í loðnuveiðum og verulegan samdrátt í veiðum á kolmunna. Hins vegar hefði makrílafli aukist en skip félagsins veiddu um 18.500 tonn af makríl á þessu ári. Þrátt fyrir þennan mikla samdrátt hefði Vopnafjörður haldið hlut sínum betur en mörg önnur sveitarfélög. Fastráðnir starfsmenn HB Granda á Vopnafirði eru alls 53 talsins.
Eggert Benedikt fjallaði sérstaklega um þær væntingar sem bundnar væru við hina nýju fiskmjölsverksmiðju sem verður ein hin fullkomnasta sinnar tegundar. Markmiðið væri að auka nýtinguna, bæta gæði afurðanna, lækka rekstrarkostnaðinn og bæta umhverfisáhrifin. Meðal nýjunga er að settur hefur verið upp rafskautaketill, sem þegar hefur verið gangsettur, og stefnt er að því að nýja verksmiðjan verði hin fyrsta í heiminum sem eingöngu mun nýta raforku til framleiðslu á hágæðafiskmjöli. Umhverfisáhrifin eru veruleg því ekki þarf lengur að brenna olíu við framleiðslu á fiskmjöli og -lýsi en undanfarin ár hefur olíunotkun verksmiðjunnar numið um 2,5 til 3,0 milljónum lítra á ári. Með lokuðu kerfi hvað varðar geymslu og flutning á mjöli frá verksmiðjunni um borð í flutningaskip mun notkun einnota mjölpoka leggjast af. Árlega hafa verið notaðir um 11-12 þúsund pokar í þessu skyni og þá hefur orðið að urða eftir notkun. Loftræsting í nýju verksmiðjunni verður einnig með því besta sem þekkist. Allt vinnslukerfið verður lokað og með blásurum verður hægt að halda undirþrýstingi í verksmiðjuhúsinu en það kemur í veg fyrir að loft og lykt leiti út annars staðar en út um hinn 40 metra háa skorstein sem reistur hefur verið. Hann kemur í stað 20 metra hás skorsteins í gömlu verksmiðjunni. Sérstök áhersla verður lögð á að nýta blóðvatn sem best og auk þess verður allt frárennsli, sem innihaldið getur lýsi, meðhöndlað í skilvindum. Þá verða settir upp söfnunartankar fyrir hreinsiefni með það að markmiði að fullnýta efnin þannig að hægt verði að nota þau til að þrífa búnað verksmiðjunnar oftar en einu sinni.
Fleiri fréttir
- 13. desember 2019
Mikil vinna við að koma rafmangi á að nýju á norðausturlandi. - 11. desember 2019
Veður skaplegt á Vopnafirði. - 03. desember 2019
Hiti í byrjun aðventu - 28. nóvember 2019
Síðustu geislar sólar þetta árið. - 23. nóvember 2019
Að veiða eða veiða ekki. - 22. nóvember 2019
Fært yfir Selá - 14. nóvember 2019
Rjúpan friðuð á Vopnafirði. - 13. nóvember 2019
1800 tonn af fiskmjöli send í pokum frá Vopnafirði til Canada. - 22. september 2016
Venus aflahæsta skip flotans - 05. júní 2016
Gleðilegan Sjómannadag. - 18. mars 2016
Árshátið Vopnafjarðarskóla 2016 - 31. janúar 2016
Unglingadeild Vopna - 03. október 2015
Tveir í "slipp" - 26. ágúst 2015
Skjólfjörur í Vopnafirði - 07. ágúst 2015
Leifarnar af göngubrúnni teknar niður.